Mikið kjaftshögg

Erlingur ræðir við aðstoðarmann sinn Magnús Stefánsson.
Erlingur ræðir við aðstoðarmann sinn Magnús Stefánsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ekki sáttur eftir tap sinna manna gegn Haukum í gærkvöldi. Liðið gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik og það á heimavelli, en allt kom fyrir ekki og Haukar fögnuðu. Staðan í einvíginu núna 2:1 fyrir ÍBV og Haukar eygja von.

Stemningin í húsinu fyrir leik og í leiknum var mögnuð og ljóst að Eyjamenn voru tilbúnir í partý.

„Stemningin var frábær, umgjörðin frábær og þess vegna er ég ósáttur að við skyldum ekki ná að sýna og bjóða upp á gæðahandboltaleik.

Flestir reiknuðu með sigri ÍBV í dag og þar af leiðandi því að Íslandsbikarinn færi á loft, Eyjamenn eru nú komnir í aðeins verri stöðu, hvernig ætla þeir að sækja bikarinn?

„Við erum ekkert í verri stöðu, við vissum að þetta yrði erfitt allan tímann, það gætu alveg orðið tveir leikir í viðbót.“

Margir leikmenn náðu sér ekki á strik í liði ÍBV í dag en það voru einungis sex leikmenn liðsins sem skoruðu mark í dag, tveir þeirra gerðu eitt mark. Allt þetta og meira til gerði það að verkum að Haukar unnu 28:34 sigur.

„Við þurfum að fókusera upp á nýtt, stilla okkur upp á nýtt, þetta var mikið kjaftshögg, þessi leikur í dag.“

Leikurinn á mánudag verður risastór fyrir Eyjamenn sem geta þá sótt bikarinn sem liðinu tókst ekki að sækja í kvöld.

„Nú þurfum við allan stuðning sem við getum fengið, við þurfum alla upp á dekk á mánudaginn og vonandi mun fólkið okkar fylgja okkur á Ásvelli.“

Erlingur fórnar höndum í gærkvöldi.
Erlingur fórnar höndum í gærkvöldi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert