Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði Eyjamanna, var augljóslega ekki sáttur með það að hans liði hafi mistekist að vinna Íslandsbikarinn á heimavelli í gærkvöldi er liðið mætti Haukum í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Kári hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari með ÍBV og veit því hve miklu máli það skiptir fyrir Eyjamenn.
„Þetta er ógeðslega leiðinlegt, auðvitað er þetta áfram gakk og allt það. Staðan er 2:1 í einvíginu og við getum klárað þetta í næsta leik, við þurfum að horfa á það líka, það er þó gefið að þetta er spælandi, ég neita því ekki. Okkur vantar heilt yfir meira framlag, sjálfur er ég að fara á stórum augnablikum með færi, sem er dýrt í svona stórum leik,“ sagði Kári en hann klikkar á tveimur vítaköstum, því fyrra í stöðunni 3:3 en Eyjamenn komust aldrei yfir eftir það klikk.
„Nei, alls ekki. Ég met það ekki þannig, mér fannst við spila okkur oft í mjög góð færi, stundum bara gengur kapallinn ekki upp, því miður var það þannig í dag,“ sagði Kári þegar blaðamaður forvitnaðist um hvort að spennustig Eyjamanna hafi verið of hátt í dag.
Eyjamenn höfðu fyrir leikinn unnið sjö leiki í röð í úrslitakeppninni, oft hafði liðið komið til baka úr slæmri stöðu, fólkið beið og beið eftir því í dag en endurkoman kom ekki.
„Við náum einfaldlega ekki áhlaupinu, þeir fá að spila ævintýralega lengi síðustu fimm mínúturnar og það er eins og það er, á meðan fer mikill tími af klukkunni.“
Hvað ætla Eyjamenn að gera til að klára einvígið á mánudaginn?
„Það er ekkert nýtt undir sólinni, við þurfum að pússa af brúnunum sem eru smá hrjúfar núna. Við setjum bara einn góðan 120 pappír á þetta, pússum þetta til og það er ekkert annað að gera en að klára þetta mál.“
Það er mikið handboltaæði í Eyjum, þetta er mikill handboltabær og sást það vel á stemningunni sem réði ríkjum fyrir leik og á meðan leik stóð. Býst Kári við fólksflutningum í Hafnarfjörðinn á mánudag?
„Alveg lifandi klárt, öll eyjan mætir með okkur. Það var yndislegt að sjá hvað það voru margir sem komu, það var sárt að geta ekki gefið þeim daginn og helgina, en svona er sportið.“