Pavel Ermolinskíj, sem gerði Tindastól að Íslandsmeistara karla í körfubolta í fyrsta skipti í sögunni á dögunum, lýsti yfir ósætti sínu með ummæli sem féllu í sjónvarpsútsendingu Stöðvar 2 sport á föstudagskvöld eftir leik ÍBV og Hauka í úrslitum karla í handbolta.
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, virtist ósáttur við dómara leiksins í leikslok og sagði að um ljótan leik hafi verið að ræða í viðtali við sjónvarpsstöðina.
Arnar Daði Arnarsson, fyrrverandi þjálfari Gróttu, sagði Erling mögulega eiga yfir höfði sér bann fyrir ummælin í útsendingunni og við það var Pavel ekki sáttur.
„Er ég að skilja rétt að handboltapanellinn í sjónvarpinu vill senda þjálfara ÍBV í bann útaf viðtali? Stöð tvö þarf að ná tökum a hlutum aftur,“ skrifaði Pavel á Twitter.
Er ég að skilja rétt að handboltapanellinn í sjónvarpinu vill senda þjálfara ibv í bann útaf viðtali? Stöð tvö þarf að ná tökum a hlutum aftur.
— Pavel Ermolinski (@pavelino15) May 26, 2023