„Færanýtingin var léleg í kvöld,“ sagði svekktur Theodór Sigurbjörnsson, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 24:27-tap liðsins gegn Haukum í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í kvöld.
„Við erum að skjóta illa á Aron, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við lákum aðeins í vörninni, en aðallega fannst mér við klikka á færunum,“ sagði Theodór og hélt áfram:
„Við erum að spila okkur í fín færi í upphafi leiks, en ég persónulega fer t.d. með þrjú færi snemma. Svo fóru tvö vítaköst forgörðum og þetta telur allt. Við komum allt í lagi inn í þennan leik.“
ÍBV komst í 2:0 í einvíginu og hefur nú misst af tveimur tækifærum til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Þess í stað verður oddaleikur í Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld.
„Auðvitað er það svekkjandi að vera ekki búnir að klára þetta. Þetta er það sem allir handboltaunnendur vilja; oddaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.
Það er ekki hægt að hafa þetta betra. Við ætlum að klára þetta fyrir framan okkar fólk. Við höfum aldrei gert það og það er kominn tími til,“ sagði hornamaðurinn.