„Dómgæslan í kvöld var frábær“

Stefán Rafn Sigurmannsson skorar eitt af fimm mörkum sínum í …
Stefán Rafn Sigurmannsson skorar eitt af fimm mörkum sínum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði 5 mörk fyrir Hauka þegar þeir jöfnuðu stöðuna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta Karla með 27:24 sigri á ÍBV.

Stefán var mjög ánægður með liðsheildina hjá Haukum í leiknum:

„Það er oft erfitt að halda svona forskoti í leikjum eins og þessum. Menn fara að slaka aðeins á og byrja að verja forskotið. Ég er svo ánægður með liðið í kvöld. Það voru allir að leggja sitt af mörkum og liðsheildin vann þennan leik. Við vorum frábærir í Bæði vörn, sókn og markvörslu frman af. Þegar gaf á bátinn þá héldum við bara ró okkar og spiluðum út sóknirnar í staðinn fyrir að henda boltanum í einhverja vitleysu.“

Í síðari hálfleik spilaði ÍBV 5-1 varnarafbrigði og lokuðu á Guðmund Braga á miðjunni. Það sást að Haukum leið ansi illa að spila á móti slíkum varnarleik og lítið gekk. ÍBV náði þá að vinna upp 8 marka forskot alveg niður í 3 mörk. Það má því búast við því að ÍBV beiti þessu varnarkerfi aftur á miðvikudag.

„Já þeir spiluðu 5-1 sem skyggði aðeins á annan vænginn hjá okkur og þeir gerðu það vel en við héldum alveg ró og náðum að spila ágætlega þannig að ég held að þetta sé ekki eitthvað sem við þurfum að hafa of miklar áhyggjur af. Við þurfum bara að halda áfram að spila okkar leik og láta boltann rúlla.“

Spurður út í dómgæsluna sem hefur verið mikið gagnrýnd í allra úrslitakeppninni sagði Stefán Rafn þetta:

„Dómgæslan í kvöld var frábær alveg eins og dómgæslan var í Eyjum í síðasta leik. Mér finnst dómgæslan almennt góð og við þurfum að bera virðingu fyrir þeim dómarapörum sem við eigum því þeir eru að reyna vinna sína vinnu vel oft undir mikilli pressu þannig að ég og allir aðrir ættum að sýna þeim þá virðingu að leyfa þeim að flauta í friði.“ Sagði Stefán Rafn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert