Fáum eitthvað sem hefur ekki sést áður

Leikmenn Hauka fagna í leikslok.
Leikmenn Hauka fagna í leikslok. mbl.is/Hákon Pálsson

Aron Rafn Eðvarðsson stóð vaktina afar vel í marki Hauka í 27:24-heimasigrinum á ÍBV í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Ráðast úrslitin í oddaleik í Vestmannaeyjum annað kvöld, eftir að ÍBV komst í 2:0 í einvíginu.

„Við vorum áræðnir og grimmir að sækja á markið fyrstu 45 mínúturnar, en svo ákváðum við að spila miðjubolta. Vörnin var geggjuð og Adam, Heimir og Þráinn allir geggjaðir. Í sókninni vorum við svo að skora, það bjó til bilið sem var í hálfleik,“ sagði Aron við mbl.is eftir leik.

Rétt eins og í þriðja leik í Vestmannaeyjum komust Haukar snemma yfir og létu forystuna aldrei af hendi. Haukar komust í 5:1 og var munurinn minnstur þrjú mörk, í lokin, eftir það.

Stuðningsmenn Hauka fanga vel í kvöld.
Stuðningsmenn Hauka fanga vel í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta var ekkert ósvipað síðasta leik. ÍBV gefst aldrei upp, en við náðum að vera klókir og rólegir á boltanum. Dómararnir voru frábærir í dag og þeir voru það líka í síðasta leik, þótt einhverjir séu ósammála,“ sagði Aron, en Eyjamenn voru allt annað en sáttir við dómgæsluna í þriðja leik.

ÍBV komst í 2:0 í einvíginu, en Haukarnir neituðu að gefast upp og eru nú á leiðinni í oddaleik með tvo sigurleiki í röð á bakinu.

„Auðvitað leið manni ekki vel í stöðunni 2:0. Persónulega fannst mér ég ekki spila vel í fyrstu tveimur leikjunum. Maður hugsaði um nokkra bolta þegar maður lagðist á koddann. Við vissum samt að þetta væri ekki búið og þetta er ekki enn þá búið. Staðan er 2:2 og þetta er vegferð sem við erum á,“ sagði Aron.

Hann sagði fáa hafa haft trú á Haukaliðinu eftir fyrstu tvo leikina, en leikmenn og þjálfarar liðsins voru ekki af baki dottnir. „Það voru allir búnir að missa trúna nema við. Við skoðuðum fyrstu tvo leikina og sáum glitta í góðar sóknir og varnir.

Aron Rafn fagnar með sínu liði eftir sigur í þriðja …
Aron Rafn fagnar með sínu liði eftir sigur í þriðja leik. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Við ákváðum að byggja á því. Það hefði verið auðvelda leiðin að leggjast niður og leyfa þeim að klára þetta. Við erum íþróttamenn og við gefumst ekki upp. Við vorum staðráðnir í að koma til baka,“ sagði hann.

Aron varð Íslandsmeistari með ÍBV árið 2018 og er ansi spenntur fyrir oddaleik í Vestmannaeyjum. „Það er geðveikt. Ég er ekkert eðlilega spenntur að fara í oddaleik í Vestmannaeyjum. Þetta verður eitthvað ótrúlegt og eitthvað sem hefur ekki sést áður í íslenskum handbolta,“ sagði Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert