Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var kampakátur með árangur sinna manna eftir 27:24 sigur á ÍBV í kvöld. Með sigrinum er staðan í einvíginu 2:2 og liðin leika hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á miðvikudag úti í Eyjum.
Þið eigið frábæran leik í 40 mínútur í kvöld og í raun yfirspilið Eyjamenn. Í síðari hálfleik fer ÍBV í 5-1 varnarafbrigði og þá breytist allt í ykkar leik. Er þetta ekki áhyggjuefni fyrir lokaleikinn í Vestmannaeyjum á miðvikudag?
“Það kemur hökt í okkar leik. Við vorum samt sæmilega skynsamir því við vorum ekki að henda boltanum í burtu. Við þurfum að eiga jafnari leik úti í Eyjum á miðvikudag, það er klárt og við þurfum að fara yfir þetta á morgun og finna lausnir á þessu. Næstu skref eru að næra okkur vel og ná einhverri endurheimt eftir þennan leik. Síðan þurfum við að greina leikinn í kvöld. Við erum að spila níunda leikinn okkar á vel innan við mánuði og menn eru þreyttir. Núna þurfum við að ná upp kröftum fyrir miðvikudag.”
Hvað útskýrir þessa ótrulegu endurkomu hjá Haukum í vetur eftir að hafa endað í 8. sæti og eru núna að fara spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn?
“Strákarnir hafa stigið svakalega upp og þeir eiga allan heiður skilið hversu vel þeir hafa leyst úr þessu sjálfir og hafa þjappað sér saman í úrslitakeppninni. Ég í raun horfi bara á og sé til þess að þeir geti skapað þennan árangur sjálfir en heiðurinn er allur hjá strákunum.” sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson við mbl.is eftir leik.