„Við þurfum að sækja dýrið innra með okkur“

Rúnar Kárason var svekktur eftir tap liðsins í kvöld.
Rúnar Kárason var svekktur eftir tap liðsins í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rúnar Kárason var vonsvikinn eftir annað tapið í röð gegn Haukum 27:24 á Ásvöllum í kvöld. Haukar lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik og sáu leikmenn ÍBV í raun aldrei til sólar fyrstu 40 mínútur leiksins.

„Ég upplifi smá svona eins og að ég hafi verið einn í þessu fyrstu 10 – 15 mínúturnar í leiknum og svo tók Arnór við og ég datt út. Við vorum bara lélegir. Þetta var bara mjög lélegt hjá okkur.“

Rúnar sagði að það væri ljóst að liðið yrði að gera betur í oddaleiknum sem spilaður verður í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn.

„Það jákvæða sem við getum tekið út úr þessum leik er að við getum engum kennt um nema okkur sjálfum. Við getum ekki mætt svona til leiks. Við þurfum að finna sjálfstraustið, gleðina og vera óhræddir við að keyra á Hauka í næsta leik og vinna þá. Nú er bara einn leikur þar sem allt er í boði og það verður bara dagsformið sem ræður.“

Rúnar hefur trú á að sínir menn geti knúið fram sigur í oddaleiknum en menn verða að vera hugrakkir og hafa trú á verkefninu.

Við þurfum að sækja dýrið innra með okkur, sjálfstraustið og vera hugrakkir. Ég trúi ekki öðru en að það mæti allir til leiks með það að markmiði að gera betur en í kvöld og vinna Hauka úti í Eyjum.” sagði Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert