Harpa Valey Gylfadóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við handknattleiksdeild Selfoss og leikur því með liðinu í næstefstu deild á komandi tímabili.
Harpa Valey gengur til liðs við Selfoss frá ÍBV þar sem hún hefur leikið allan sinn feril, en flytur nú upp á fasta landið.
Hún hefur verið lykilleikmaður í liði ÍBV undanfarin ár og skoraði 71 mark í 25 leikjum fyrir liðið á síðasta tímabili þegar ÍBV varð bæði deildar- og bikarmeistari. Þá hefur hún einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands sem og A-landsliðinu.
„Það er okkur mikið gleðiefni að þær stelpur sem höfðu tækifæri til að leika í efstu deild á næsta tímabili ætli að halda tryggð við klúbbinn og þessi viðbót mun bara styrkja okkar þegar sterka hóp,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari liðsins, í tilkynningu frá handknattleiksdeild Selfoss.
Í tilkynningunni var koma Perlu Ruthar Albertsdóttur til uppeldisfélagsins frá Fram um leið staðfest, en greint hafði verið frá því í febrúar síðastliðnum að hún myndi söðla um.
Einnig hafði verið tilkynnt um komu Lenu Margrétar Valdimarsdóttur til Selfoss frá Stjörnunni en hún vatt kvæði sínu í kross þegar ljóst varð að liðið væri fallið niður í 1. deild og samdi við uppeldisfélag sitt Fram í dag.
Perla Ruth snýr hins vegar aftur í Selfoss, þar sem hún er búsett, eftir gæfurík ár hjá Fram þar sem hún vann til fjölda titla og var reglulega í íslenska landsliðshópnum. Hún er einn af leikja- og markahæstu leikmönnum Selfoss frá upphafi með 457 mörk í 137 leikjum.
„Ég er með stórt Selfoss hjarta og er því spennt að taka slaginn með uppeldisfélaginu í þessu mikilvæga verkefni sem er fram undan. Selfoss er með mikinn metnað, frábæra umgjörð, efnilegan leikmannahóp og gríðarlega spennandi þjálfarateymi.
Við ætlum okkur beina leið aftur upp í Olísdeildina og stefnum á að festa liðið í sessi sem eitt af betri liðum landsins á skömmum tíma.
Það er margt spennandi og skemmtilegt fram undan í klúbbnum og er ég virkilega spennt að spila aftur fyrir framan frábæru stuðningsmennina á Selfossi,“ sagði Perla Ruth í tilkynningunni.