KA nær í Norðmann og Eista

KA hefur bætt við sig tveimur leikmönnum.
KA hefur bætt við sig tveimur leikmönnum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA hefur náð í tvo nýja erlenda handknattleiksmenn fyrir baráttuna í úrvalsdeild karla á næsta keppnistímabili.

Ott Varik er 33 ára gamall landsliðsmaður Eistlands sem leikur í hægra horni en hann kemur  til KA frá Viljandi í heimalandi sínu. Hann lék áður í Finnlandi og var í landsliði Eistlands sem mætti Íslandi í undankeppni EM fyrr á þessu ári.

Nicolai Horntvedt Kristensen er tvítugur markvörður frá Noregi en hann kemur til liðs við KA frá B-deildarliðinu Nötteröy. Hann hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Noregs.

Þeir eiga að fylla skörð tveggja erlendra leikmanna sem yfirgáfu KA eftir tímabilið en Færeyingarnir Allan Norðberg og Nicholas Satchwell eru báðir horfnir á braut frá Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert