„Ég er klökkur og þakklátur,“ sagði Róbert Sigurðarson, varnarmaðurinn sterki hjá ÍBV, í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari í handbolta eftir sigur á Haukum í oddaleik í Vestmannaeyjum í kvöld.
„Ég veit ég er að segja eitthvað, en ég er líka orðlaus. Þetta er mikill tilfinningarússíbani. Ég ætla að njóta þess í kvöld og pæla í öllu öðru seinna,“ sagði Róbert.
Hann viðurkenndi að það hafi verið mikill léttir þegar lokaflautið gall. „Það var léttir að þetta væri búið og komið. Við erum búnir að leggja ógeðslega mikið á okkur. Við gerðum þetta allt of erfitt fyrir okkur, en það er Eyjaleiðin.“
ÍBV komst í 2:0 í einvíginu, en Haukar jöfnuðu með tveimur sigrum. ÍBV var hins vegar sterkara liðið í oddaleik í kvöld. „Mér leið frábærlega. Við vissum að þeir þurftu að koma hingað og spila við okkur í fullu húsi. Við vorum aldrei að fara að tapa þessu.“
Róbert, sem er Akureyringur, var að leika sinn síðasta leik fyrir ÍBV, í bili hið minnsta. Hann samdi við Drammen í Noregi á dögunum.
„Það er erfitt að kveðja. Ég fæ tár þegar þú segir þetta. Ég á eftir að þakka svo mörgum. Ég er með bestu vini, fjölskyldur og mömmur. Ég er búinn að eignast fjölskyldur hérna,“ sagði Róbert.