Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í Zwickau eiga ágæta möguleika á að halda sæti sínu í efstu deild þýska handboltans eftir heimasigur á Göppingen, 26:23, í fyrri umspilsleik liðanna í kvöld.
Zwickau varð næstneðst í 1. deildinni og Göppingen hafnaði í öðru sæti 2. deildar og því leika liðin tvo leiki, heima og heiman, um sætið.
Díana, sem er fyrirliði Zwickau, skoraði fimm mörk í leiknum í kvöld en liðið fer með þriggja marka forskot í seinni leikinn í Göppingen á laugardaginn. Samanlögð úrslit tveggja leikja ráða úrslitum í einvíginu.