ÍBV varð í kvöld Íslandsmeistari karla í handbolta í þriðja sinn með 25:23-heimasigri á Haukum í oddaleik úrslitaeinvígisins. ÍBV vann tvo fyrstu leikina í einvíginu og Haukar næstu tvo. Réðust úrslitin því í kvöld. Leikið var í troðfullu íþróttahúsi í Vestmannaeyjum.
Eyjamenn byrjuðu betur og Rúnar Kárason kom ÍBV í 4:2 með neglu eftir tæplega níu mínútna leik. Kári Kristján Kristjánsson kom ÍBV þremur mörkum yfir í fyrsta sinn, með sjöunda marki Eyjamanna, á 15. mínútu, 7:4.
Heimamenn héldu því forskoti næstu mínútur og munaði þremur mörkum þegar fjórar mínútur voru eftir af hálfleiknum, 11:8. Rúnar Kárason var að spila fyrir Eyjamenn, að vanda, og tók hann erfiðu skotin þegar Haukarnir náðu að standa góða vörn.
Haukar gáfust ekki upp og tókst þeim með góðum kafla undir lok hálfleiksins að minnka muninn í eitt mark, 11:10, sem voru hálfleikstölur. Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, átti stærstan hlut í að munurinn var ekki meiri, því hann varði glæsilega í fyrri hálfleiknum.
Stefán Rafn Sigurmannsson byrjaði seinni hálfleikinn á því að jafna í 11:11 og voru liðin því aftur komin á byrjunarreit og með rétt tæpar 30 mínútur til að ná frumkvæðinu og Íslandsmeistaratitlinum.
Ólafur Ægir Ólafsson fékk dauðafæri til að koma Haukum í 13:12 og yfir í fyrsta skipti snemma í seinni hálfleik, en hann skaut í stöng. ÍBV refsaði með næstu þremur mörkum og var staðan 15:12, þegar 20 mínútur voru eftir.
Eyjamenn komust svo aftur í fjögurra marka forystu þegar seinni hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður, 19:15, og verkið orðið ansi ærið fyrir gestina.
Haukar gerðu vel í að minnka muninn í blálokin, en það dugði ekki til, og Eyjamenn fögnuðu tveggja marka sigri og Íslandsmeistaratitlinum.
Rúnar Kárason skoraði tíu mörk fyrir ÍBV og Dagur Arnarsson fjögur. Andri Már Rúnarsson skoraði átta fyrir Hauka og Aron Rafn Eðvarðsson varði 12 skot í markinu.