Með 18 ára gutta sem hoppar og skoppar

Erlingur Richardsson heldur á bikarnum góða í leikslok.
Erlingur Richardsson heldur á bikarnum góða í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er fyrst og fremst feginn að þetta er búið, ég verð að segja að maður er búinn að prófa ýmislegt, þetta tók á þetta einvígi. Þetta tók á okkur alla, við gerðum þetta vel hérna og stuðningurinn frábær,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, sem var greinilega hrærður yfir stuðningi Eyjamanna er ÍBV vann Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í þriðja skiptið í kvöld og það fyrsta í Vestmannaeyjum. Lokatölur í oddaleiknum gegn Haukum voru 25:23.

Erlingur hrósaði Ívari Bessa Viðarssyni, 18 ára leikmanni ÍBV, sem hóf leikinn í dag og spilaði nánast allan tímann í vörn liðsins.

„Við erum með einhvern 18 ára gutta fyrir framan í vörn, sem hoppar og skoppar, og hann gerði þetta frábærlega. Hann var líka lykillinn að þessu. Við höfum lagt áherslu á þetta í þessu einvígi og í þessum leik. Við ákváðum að leyfa honum að vera frjálsum og ef hann gat horft á mig á hliðarlínunni þá reyndi ég að hjálpa honum. Þetta virkaði.“

Eyjamenn hófu hina fjóra leikina í sinni gríðarlega sterku 6-0-vörn en hafa alltaf þurft að skipta yfir í 5-1-vörnina sína, en nú hóf liðið leik í 5-1-vörninni.

Erlingur Richardsson fagnar á lokamínútu leiksins.
Erlingur Richardsson fagnar á lokamínútu leiksins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Okkar varnir eru búnar að halda mjög vel, en svo fundum við að við vorum orðnir virkilega passífir í 6-0-vörninni, þetta átti ekkert endilega að lifa allan leikinn. Við ætluðum að byrja og koma okkur í gang, við vildum láta reyna á þá líka. Þeir eru með frábæra skotmenn og ef maður stendur á 7-8 metrum á móti þeim þá fær maður bara mark í andlitið. Við reyndum að koma þeim aftar á völlinn.“

Eyjamenn byrjuðu leikinn líka mjög vel og voru yfir snemma, Haukar náðu aldrei forystunni í leiknum en brenndu af dauðafæri í stöðunni 12:12.

„Við vorum bara yfir allan tímann er það ekki? Þetta var þá leikurinn til að byrja svona.“

Erlingur sagði nokkur orð um stuðningsmenn félagsins.

„Þetta er unaðsleg tilfinning, það er frábært að fólk nái að upplifa það að horfa á sitt félag vinna titil hérna, það er æðislegt. Þetta fólk hefur lagt á sig gífurlega mikið, bæði stelpurnar og karlarnir núna, ég held að maí hafi verið prógramm fyrir alla bæjarbúa og spurning hvort þeir þurfi ekki á hvíld að halda eftir þessa törn, hafa sýnt frábæran stuðning.“

Erlingur hafði orð á því að hann væri meira stoltur af því að skila af sér góðum leikmönnum heldur en bikurum. Hann er samt stoltur af bikarnum sem hans lið vann sér inn í dag.

„Ég er það, sérstaklega af því að leikmennirnir stíga upp, ungir strákar eins og við sjáum Arnór, Ívar Bessa, Elmar, þó hann hafi ekki spilað mikið í dag, hann kemur inn og hjálpar okkur að höggva á nokkra hnúta þegar hann kom inn á. Ég gæti nefnt fleiri.“

Dagur Arnarsson lék mikið í þessum leik og fann sig virkilega vel á köflum, hann stýrði sókn ÍBV vel. Var Erlingur að leita í reynslu Dags í dag?

„Ég leitaði í reynsluna hjá honum. Við vildum einnig vera með varnarlið inn á allan leikinn í dag. Við tókum séns, vorum ekki eins mikið að skipta og ætluðum að keyra meira á sama genginu.“

Hvað ætlar Erlingur að gera í kvöld?

„Það er góð spurning. Ég stend bara hér og veit ekkert hvert ég er að fara. Það kemur í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert