„Þessi leikur leggst hrikalega vel í mig og ég er fyrst og fremst spenntur,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta verður algjör veisla geri ég ráð fyrir. Þetta er hrikalega skemmtilegt, og jafnframt krefjandi verkefni, að takast á við og í raun algjört draumaverkefni ef svo má segja. Þetta er einn leikur, allt undir, og auðvitað bikar í boði, og við erum fullir tilhlökkunar.
Við erum með smá vind í seglunum núna eftir tvo sigurleiki í röð og ég held að það sé ekkert vanmat af minni hálfu þegar ég segi að við séum að gera eitthvað rétt í þessu. Leikurinn á morgun verður hins vegar eins og allir úrslitaleikir, algjörlega 50/50, og þetta verður barátta fram í rauðan dauðann,“ sagði Ásgeir Örn.
Eyjamenn komust í 2:0 í einvíginu og virtust eiga sigurinn vísan en frábær frammistaða Hafnfirðinga í síðustu tveimur leikjum tryggði þeim oddaleik í Vestmannaeyjum.
„Ég þarf ekki að hvetja strákana neitt sérstaklega til dáða þar sem hvatningin er til staðar og þeir gætu ekki verið tilbúnari í verkefnið. Þetta snýst kannski meira um það að stilla af spennustigið. Leikjaálagið hefur verið gríðarlega mikið og við höfum því lítið getað æft.“
Viðtalið við Ásgeir má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.