Elmar Erlingsson varð Íslandsmeistari með Eyjamönnum í gærkvöldi eftir sigur í oddaleik á Haukum. Elmar lék ekki mikið í leiknum en hefur leikið virkilega vel undir stjórn föður síns sem yfirgefur nú þjálfarastöðuna. ÍBV vann 25:23-sigur og varð því Íslandsmeistari í þriðja skiptið og var þetta fyrsta á heimavelli.
„Þetta var geggjað, þetta er það sem maður hefur viljað upplifa síðan maður var uppi í stúku með Hvítu riddurunum,“ sagði Elmar en stuðningsmannasveit ÍBV hefur sett svip sinn á Íslandsmótið í handknattleik síðan ÍBV vann sér sæti í efstu deild árið 2013.
„Maður er búinn að vera mikið í stúkunni og í fyrra var þetta mjög svekkjandi, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu,“ sagði Elmar en ÍBV þurfti að horfa á Valsmenn lyfta Íslandsbikarnum í Vestmannaeyjum fyrir ári síðan, það var eitthvað sem liðið gat ekki látið gerast aftur, að horfa á andstæðingana lyfta bikarnum í Eyjum.
„Við mættum í þennan leik og ætluðum að vinna titilinn fyrir þau,“ sagði Elmar og benti á stuðningsfólk Eyjamanna í stúkunni.
Eyjamenn hafa gert sér erfitt fyrir í síðustu leikjum með því að hefja leikina illa. Haukar hafa haft yfirhöndina í flestum leikjunum í upphafi, en annað var uppi á teningnum í dag.
„Það var mjög mikilvægt, við fórum í þennan leik eins og við værum 3:0 undir, við ætluðum að sækja þennan titil og það gekk upp. Það hefur verið mjög skemmtilegt að spila fyrir pabba. Það getur samt verið mjög pirrandi ef það gengur ekki allt upp, þá heima, en annars hefur verið mjög gaman,“ svaraði Elmar þegar hann var spurður hvernig liðið hefði nálgast leikinn og hvernig það væri að spila fyrir pabba sinn.
Var eitthvað kæruleysi í herbúðum ÍBV fyrir leiki þrjú og fjögur?
„Við vorum kannski farnir að hugsa að við værum komnir með þetta, fórum rólega inn í leikinn. Maður þarf að sækja þetta, en við vorum greinilega ekki að því, vorum eins og við værum komnir með þetta.“
Mætingin í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja í gærkvöld var til fyrirmyndar, frá stuðningsmönnum beggja liða.
„Það sýnir hversu stórt þetta samfélag er, það þekkjast allir hérna, það eru allir vinir og það er það geggjaða við þetta.“
Hvenær áttaði Elmar sig á því að hann yrði Íslandsmeistari?
„Þegar það voru svona 30 sekúndur eftir, við vorum með boltann og að vinna með tveimur, þá byrjaði ég að fagna.“