Sigtryggur Daði Rúnarsson varð í gær Íslandsmeistari með ÍBV í handknattleik eftir 25:23-sigur liðsins á Haukum í oddaleik í Vestmannaeyjum.
Yngri bróðir hans, Andri Már, fór mikinn í liði Hauka og skoraði fjölda mikilvægra marka fyrir gestina í leiknum í gærkvöldi, og það í öllum regnbogans litum.
Átta mörk Andra Más dugðu þó ekki til og ÍBV varð Íslandsmeistari í þriðja sinn. Sigtryggur Daði hrósaði bróður sínum í hástert í dag.
„Djöfull er Andri bróðir góður í handbolta,“ skrifaði hann einfaldlega á Twitteraðgangi sínum.
Sigtryggur Daði er 26 ára og Andri Már tvítugur.