Forráðamenn HSÍ hafa undanfarnar vikur og mánuði mátt þola gagnrýni vegna þess tíma sem það tók að ráða nýjan landsliðsþjálfara karla í handbolta. Sú bið tók enda í dag, þegar Snorri Steinn Guðjónsson var ráðinn eftirmaður Guðmundar Þ. Guðmundssonar.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, var lítið að stressa sig á gagnrýninni. Á meðan leitin að nýjum þjálfara stóð yfir stýrðu Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson íslenska liðinu.
„Þessi gagnrýni á tímalengdina var mest í fjölmiðlum. Við réðum aðstoðarþjálfarana til að klára þau verkefni sem þeir kláruðu til að gefa okkur tíma til að taka þessa ákvörðun. Við vildum ekki taka einhverja skyndiákvörðun um þjálfaramál.
Svo þarf að kortleggja þetta og það koma mismunandi nöfn upp. Þú þarft að nálgast þetta á ákveðinn hátt, skoða kosti og galla og hvort viðkomandi hafi áhuga á starfinu og hvernig sýn hans er á liðið. Þetta tekur allt tíma og við vorum ekkert að flýta okkur. Ég var aldrei að telja dagana og þetta hafði engin áhrif á okkar störf,“ sagði Guðmundur við mbl.is í dag.
Á meðal þeirra sem gagnrýndu forráðamennina harðlega var Dagur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði til margra ára. Dagur var orðaður við starfið, en hann gerði þýska landsliðið að Evrópumeistara 2016.
„Ég tek því með mikilli ró. Ég veit hvernig samtal okkar Dags var, það var opið og heiðarlegt. Ég hafði ekkert að fela í því. Ég tek ekki svona gagnrýni persónulega. Ég er bara að reyna að gera mitt besta fyrir sambandið og ég legg mig fram við það.
Þótt það komi persónuleg gagnrýni á mig og einhverjir séu fúlir yfir hvað þetta tók langan tíma, þá snertir það mig ekki, svo lengi sem það skaðar ekki sambandið,“ sagði Guðmundur.