Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, reyndi allt til þess að hans lið yrði Íslandsmeistari í gærkvöldi er Haukar léku oddaleik við ÍBV í Vestmannaeyjum.
Aron var magnaður í marki Hauka og hélt þeim inni í leiknum á löngum köflum. Eyjamenn reyndust sterkari á lokasprettinum í einvíginu sem var frábær skemmtun. Aron varði 12 skot í marki Hauka, tvöfalt fleiri en markverðir Eyjamanna.
„Sóknarlega aðallega held ég, það sést á tölunum, við skorum bara 23 mörk. Kannski var spennustigið of hátt, en ég veit það ekki, svona leikir eru bara dagsform, ég gæti nefnt allar klisjurnar í bókinni,“ sagði Aron strax eftir leik í gær, aðspurður hvar Haukar hefðu tapað þessum leik.
„Við vorum drulluþreyttir varnarlega, náðum ekki að skora nægilega mikið úr þessum hröðu miðjum sem við vorum búnir að vera að skora úr, við höfðum náð að refsa þeim mikið þannig. Ég held við fáum bara eitt eða tvö þannig mörk í lokin. Þetta er súrt en ég vil óska ÍBV til hamingju, þeir voru frábærir líka.“
Eyjamenn tóku forystuna snemma í leiknum og voru Haukar að elta allan leikinn, dró það kraftinn úr Haukum að vera að elta?
„Að sjálfsögðu, það er engin afsökun en við erum að spila tíunda leikinn okkar og þeir áttunda, við förum í fimm leiki á móti Aftureldingu sem tók toll. Það er hrós á okkur finnst mér, að við rétt slefum inn í úrslitakeppnina, við vissum reyndar að við vorum ekki eins lélegir eins og taflan sagði. Silfur í bikarnum og silfur í úrslitakeppninni, í janúar þá hafði enginn trú á þessu, kannski er það jákvætt ef maður á að líta jákvætt á þetta, sem er erfitt strax eftir leik allavega.“
Aron var stoltur af liðsfélögum sínum.
„Það var búið að skipuleggja eitthvað húllumhæ hérna og við vorum tilbúnir í að skemma partíið. Sérfræðingarnir og allir á Íslandi nema við, föttuðu í þriðja eða fjórða leik að við værum líka hérna til að reyna að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Það var eins og ÍBV væri bara að fara að vinna þetta og við ættum að horfa á það, við vorum sannfærðir um að gefa þeim leik. Þetta var geggjaður leikur í dag, en ekki mikið fyrir augað hugsa ég.“
Haukamenn mættu vel á leikinn í dag og hjálpuðu Eyjamönnum að mynda frábæra stemningu á leiknum.
„Það var geggjað, í fyrsta leik gátum við ekki fengið áhorfendur en í leik þrjú vorum við með fullt af áhorfendum og í dag voru áhorfendur geggjaðir.“