Snorri Steinn Guðjónsson verður kynntur sem nýr landsliðsþjálfari karla í handbolta á fundi HSÍ klukkan 13 í dag. Arnór Atlason verður aðstoðarþjálfari Snorra, en þeir voru lengi samherjar í íslenska landsliðinu.
Snorri hefur undanfarnar vikur átt í viðræðum við HSÍ og er samkomulag loks í höfn. Snorri tekur við af Guðmundi Guðmundssyni, sem lét af störfum eftir HM í Svíþjóð í janúar.
Síðan þá hafa Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson stýrt liðinu til bráðabirgða og undir þeirra stjórn tryggði íslenska liðið sér sæti á EM í Þýskalandi á næsta ári.
Snorri Steinn, sem er 41 árs gamall, hefur verið þjálfari karlaliðs Vals frá árinu 2017 og undir hans stjórn urðu Valsmenn tvívegis Íslandsmeistarar og tvívegis bikarmeistarar.
Þá fór liðið alla leið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar í ár þar sem liðið féll úr leik eftir tap gegn þýska stórliðinu Göppingen.
Hann var í lykilhlutverki í landsliðinu og lék á sínum tíma 257 landsleiki og skoraði í þeim 846 mörk. Snorri lék aðeins með Val hér á landi, en lék lengi sem atvinnumaður í Þýskalandi, Danmörku og Frakklandi.