Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti enn einn stórleikinn fyrir Kadetten Schaffhausen á tímabilinu þegar liðið hafði betur gegn Kriens, 33:25, í öðrum úrslitaleik liðanna um svissneska meistaratitilinn.
Óðinn var markahæstur í leiknum með níu mörk fyrir Kadetten, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar.
Staðan í einvíginu er nú 2:0, Kadetten í vil, og þarf liðið aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér meistaratitilinn.
Kadetten er ríkjandi meistari og vann titilinn á síðasta ári með því að hafa betur, 3:0, í einvígi við Pfadi Winterthur.