Ísak Rafnsson varð Íslandsmeistari í handbolta í gær í sinni fyrstu tilraun með ÍBV þegar liðið vann Hauka 25:23 í oddaleik sem fram fór fyrir fullri höll í Vestmannaeyjum.
Ísak kom til ÍBV fyrir leiktíðina frá FH-ingum sem Eyjamenn skildu eftir með sárt ennið í undanúrslitunum.
„Ég er orðlaus, þetta er ofboðslega mikil hamingja,“ voru fyrstu orð Ísaks við blaðamann stuttu eftir leik.
Eyjamenn leiddu einvígið 2:0 en Haukar komu til baka og knúðu fram oddaleik með tveimur sterkum sigrum. Var Ísak orðinn stressaður?
„Nei, ég hafði gífurlega trú á okkar liði, við erum með besta liðið á Íslandi. Haukarnir eru líka með frábært lið, við vissum fyrir einvígið að þetta yrði erfitt og það var ágætis högg að tapa þessum tveimur leikjum. Við vissum samt að ef við myndum spila á fullu gasi, þá myndum við klára þetta.“
Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og leiddu allan leikinn.
„Við vorum búnir að tala um það að þetta eru ekki margir leikir í úrslitakeppninni þar sem við höfum verið yfir eftir tíu mínútur, við vorum staðráðnir í að byrja leikinn í dag frá fyrstu sekúndu og við gerðum það.“
Ísak var ánægður með stuðninginn sem ÍBV fékk í dag.
„Djöfulsins rugl, djöfulsins rugl var þetta. Þetta eru bestu stuðningsmenn á landinu, án alls vafa, þá eru þetta bestu stuðningsmenn á landinu. Þegar það gekk erfiðlega hjá okkur þá gat maður alltaf litið upp í stúku og fengið auka kraft. Þeir fleyttu okkur yfir endalínuna.“
Ísak var ekki lengi að svara því hvort hann hefði haft trú á því að standa hér með gullmedalíuna um hálsinn, þegar hann skrifaði undir hjá ÍBV í sumar.
„Já, þetta var 100% markmiðið, ég vissi það að ÍBV væri með gott lið og markmiðið var að koma hingað og vinna bikara.“
Ísak sagði í viðtali eftir fyrsta leikinn að hann ætlaði bara að skora mikilvæg mörk, eina mark hans í einvíginu kom ÍBV í 18:15 í seinni hálfleik.
„Eins og ég sagði við þig, þá vel ég mörkin sem ég skora og ég skora bara mikilvæg mörk. Öxlin á mér þolir ekki mikið meira en það,“ sagði Ísak hlæjandi áður en hann hélt áfram að fagna með liðsfélögum sínum.