Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í Zwickau verða áfram í efstu deild þýska handboltans eftir útisigur á Göppingen, 30:27, í seinni umspilsleik liðanna í dag.
Zwickau varð næstneðst í 1. deildinni og Göppingen hafnaði í öðru sæti 2. deildar og því léku liðin tvo leiki, heima og heiman, um sætið þar sem samanlögð markatala réði úrslitum. Zwickau vann einnig fyrri leikinn, 26:23, og vinnur því samanlagt 56:50.
Díana Dögg, sem er fyrirliði Zwickau, átti fínasta leik og skoraði sex mörk í dag.