Bjarki Már Elísson og liðsfélagar í Veszprém eru búnir að jafna úrslitaeinvígi sitt gegn Pick Szeged um ungverska meistaratitilinn í handbolta með 34:27-sigri í dag.
Staðan í einvíginu er 1:1 og munu úrslitin ráðast á heimavelli Szeged í næsta leik, en tvo sigra þarf til að tryggja sér meistaratitilinn.
Það munaði aðeins einu marki á liðunum í hálfleik, 18:17 fyrir Veszprém, en í síðari hálfleik var Veszprém mun sterkari aðilinn og sigldi sigrinum heim. Bjarki Már átti stórfínan leik fyrir Veszprém en hann skoraði níu mörk.