Arnar Birkir Hálfdánsson er genginn til liðs við nýliða Amo í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Arnar Birkir, sem er 29 ára gamall, kemur til félagsins frá Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni þar sem hann lék á síðustu leiktíð. Amo er frá bænum Alstermo í suðurhluta Svíþjóðar og hefur aldrei áður leikið í efstu deild.
Örvhenta skyttan skrifaði undir tveggja ára samning í Svíþjóð en hann er fjórði Íslendingurinn sem gengur til liðs við sænskt félag, síðustu vikur.
Þeir Ólafur Andrés Guðmundsson, Dagur Sverrir Kristjánsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson hafa allir skrifað undir samning við nýliða Karlskrona.
Arnar hefur einnig leikið með Aue í Þýskalandi og SönderjyskE í Danmörku á atvinnumannaferlinum og þá hefur hann leikið með FH, ÍR og uppeldisfélagi sínu Fram hér á landi.