Valsarinn Benedikt Gunnar Óskarsson var valinn besti sóknarmaður Olísdeildarinnar í handknattleik á verðlaunaafhendingu HSÍ í Minigarðinum í Skútuvogi í dag.
Benedikt sagði í samtali við mbl.is að hann væri mjög sáttur með verðlaunagripinn. „Þetta var fínt ár hjá mér og það er geggjað að fá einhverja viðurkenningu fyrir það.“
Valsarinn ungi meiddist illa á nára í heimaleik liðsins gegn Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í mars og spilaði ekkert með Val í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.
Vegna meiðslanna ríkti einnig óvissa um þátttöku hans með íslenska U21-árs landsliðinu á HM 2023 í Þýskalandi og Grikklandi í sumar, en mótið hefst þann 20. júní næstkomandi.
Benedikt segist þó vera bjartsýnn á að ná heimsmeistaramótinu, en hann náði sinni fyrstu æfingu frá meiðslunum í gær.
„Ég tók mína fyrstu æfingu í gær eftir tvo og hálfan mánuð. Æfingin var bara fín og stefnan er að ná HM 20. júní.“
Hverjar eru líkurnar á það gerist?
„Ég tel vera mjög góðar líkur á því. Ég og sjúkraþjálfarinn minn höldum að ég nái þessu og ég hef mikla trú á því,“ sagði Benedikt að lokum í samtali við mbl.is.