Íslandsmeistarabikarinn sem karlalið ÍBV í handbolta fékk til eignar eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í síðustu viku er í góðu lagi, en um grín var að ræða af hálfu leikmanna ÍBV að hann hafi fyrst týnst og síðan fundist í slæmu ástandi.
Á mynd sem mbl.is birti fyrr í dag, þar sem Íslandsbikarinn virðist illa farinn, var bikarinn aðeins í yfirhalningu hjá Eyjablikk fyrir lokahóf handknattleiksdeildar ÍBV, sem haldið var á föstudaginn var. Var hann tekinn í sundur, pússaður, þrifinn og svo settur aftur saman.
Grínið byrjaði þegar Róbert Sigurðarson, leikmaður ÍBV, lýsti eftir bikarnum á Facebook-síðunni Heimaklettur. Var um grín að hálfu leikmanna að ræða og eru allir bikararnir sem ÍBV hefur unnið á leiktíðinni í góðu standi, eins og sjá má í myndinni hér fyrir neðan.