Leggur skóna á hilluna og verður aðstoðarþjálfari

Arnór Þór Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu fyrir rúmum …
Arnór Þór Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu fyrir rúmum tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Þór Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Bergischer, leggur skóna á hilluna að síðustu umferð þýsku 1. deildarinnar lokinni á sunnudag.

Akureyri.net greinir frá.

Arnór Þór, sem er 35 ára gamall, mun þó halda kyrru fyrir hjá Bergischer þar sem hann kemur inn í þjálfarateymi liðsins í sumar. Verður hann annar tveggja aðstoðarþjálfara og hefur skrifað undir tveggja ára samning þess efnis.

Þá mun Arnór Þór þjálfa 16-ára lið Bergischer.

Hann er alinn upp hjá Þór á Akureyri og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir uppeldisfélagið. Þaðan hélt hægri hornamaðurinn til Vals og hélt svo í atvinnumennsku til Þýskalands.

Fyrst lék Arnór Þór með Bittenfeld um tveggja ára skeið og er nú að ljúka sínu ellefta tímabili með Bergischer.

Hann á að baki 120 A-landsleiki og tók þátt á sjö stórmótum fyrir Íslands hönd. Arnór var fyrirliði landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar 2021.

Síðasti leikur Arnórs Þórs á ferlinum verður heimaleikur Bergischer gegn Erlangen, þar sem Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka