Partístandið álíka krefjandi og úrslitakeppnin

Rúnar Kárason segir mikið partístand hafi verið í Eyjum undanfarið.
Rúnar Kárason segir mikið partístand hafi verið í Eyjum undanfarið. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Maður á að fagna eins og maður muni aldrei vinna aftur,“ sagði Rúnar Kárason, fyrrverandi leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is er hann var margverðlaunaður á verðlaunahófi Handknattleikssambands Íslands, sem haldið var í Mínigarðinum í dag.

Rúnar var valinn besti leikmaður úrvalsdeildar karla í handknattleik ásamt því að vera valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar, og fékk fyrir vikið Valdimarsbikarinn.

Mikil stemmning hefur verið á Eyjafólki síðustu daga og vikur og má sjá það á bikarnum sem ÍBV fékk til eignar í grein mbl.is hér að neðan.

Djammið krefjandi líkamlega

Rúnar var spurður út í partístandið á Eyjamönnum undanfarið og sagði að það hefði aðallega verið fjör í Vestmannaeyjum, en líka eitthvað á honum í borginni.

„Það er aðallega búið að vera fjör í Vestmannaeyjum. Við erum alveg búin að fagna þessu og það er í rauninni líka búið að vera krefjandi líkamlega, ekki síður en úrslitakeppnin. En þetta er búið að vera alveg ótrúlega gaman. 

Ég er nú bara þeirrar skoðunar að maður eigi að fagna eins og maður muni aldrei nokkurn tímann aftur verða Íslandsmeistari. Þannig að ef maður verður það aldrei aftur þá getur maður horft til baka og þótt það hafi verið erfitt og krefjandi, var það ógeðslega gaman. Og maður vinnur það ekki til baka eftir á,“ segir Rúnar.

Rúnar Kárason, lengst til vinstri, ásamt liðsfélögum sínum með bikaranna.
Rúnar Kárason, lengst til vinstri, ásamt liðsfélögum sínum með bikaranna. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert