Unnu í endurkomu Gísla

Gísli Þorgeir Kristjánsson sneri aftur á völlinn í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson sneri aftur á völlinn í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Magdeburg vann í kvöld 31:27-heimasigur á Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handbolta. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék sinn fyrsta leik í tæpa mánuð, vegna meiðsla, og skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg.

Liðið á enn örlitla von á að verja Þýskalandsmeistaratitil sinn er lokaumferðin verður leikin á sunnudag, en liðið verður að vinna Wetzlar, helst stórt, og treysta á að Kiel tapi fyrir Göppingen, helst stórt. Göppingen er í 14. sæti á meðan Kiel er á miklu flugi.

Ómar Ingi Magnússon lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla.

Elliði Snær Viðarsson skoraði fjögur mörk fyrir Gummersbach í 35:32-heimasigri á Göppingen. Hákon Daði Styrmisson komst ekki á blað, en Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið.

Teitur Örn Einarsson gerði þrjú mörk fyrir Flensburg í 33:28-útisigri á Erlangen. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.

Þá vann Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari, 32:19-heimasigur á Minden. Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú fyrir Minden, sem er fallið niður í 2. deild.

Standings provided by

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert