Rúnar Kárason úr ÍBV og Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir voru valin bestu leikmenn úrvalsdeildar karla og kvenna á verðlaunahófi Handknattleikssambands Íslands, sem haldið var í Minigarðinum í Skútuvogi í gær.
Ásamt því að vera valin best fengu Rúnar og Elín einnig önnur verðlaun en Rúnar var valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar og fékk fyrir vikið Valdimarsbikarinn. Elín var þá einnig valin efnilegasti leikmaður deildarinnar.
„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir sín störf. Ég get nú ekki sagt að þetta sé eitthvað sem maður stefnir endilega að. Aðalmálið er bara að við gátum siglt titlinum heim. Það er það sem er skemmtilegast og þetta er bara smá súkkulaðikurl í kakóið,“ sagði Rúnar um að vera valinn bestur.
Elín Klara segist líta til baka á tímabilið með mikilli ánægju, en Haukar duttu út í framlengdum oddaleik undanúrslitanna gegn ÍBV, eftir að hafa verið síðasta liðið inn í úrslitakeppnina.
„Þetta er búið að vera bara frábært tímabil ef maður horfir á þetta heilt yfir með úrslitakeppninni og öllu því sem fylgdi henni. Þetta byrjaði nokkuð brösuglega hjá okkur en svo endaði þetta framar okkar vonum. Það er mikill heiður að vera valin besti leikmaður deildarinnar. Það er margt sem hefði samt mátt fara betur,“ sagði Elín Klara.
Nánar er rætt við Rúnar og Elínu Klöru á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.