Handknattleiksþjálfarinn sigursæli Stefán Arnarson er nýr þjálfari kvennaliðs Hauka og gerir þriggja ára samning við félagið.
Mun Stefán mynda teymi með Díönu Guðjónsdóttur sem stýrði Haukum til góðs árangurs í úrslitakeppninni á nýliðnu tímabili, þar sem liðið sló út Stefán og Fram í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og tapaði naumlega fyrir ÍBV í oddaleik í undanúrslitum.
Í tilkynningu frá Haukum segir meðal annars að Stefán sé „öllum handboltaáhugamönnum kunnur.“
„Stefán er mjög reyndur þjálfari og hefur verið einkar sigursæll með sínum liðum. Hann gerði til að mynda kvennalið Fram og Vals samtals sjö sinnum að Íslandsmeisturum og fimm sinnum að bikarmeisturum.
Haukar hafa verið í markvissri uppbyggingu með kvennaflokka félagsins síðastliðin ár og er ráðning Stefáns og áframhaldandi vera Díönu mikilvægur þáttur í því að taka næsta skref og festa liðið í sessi í toppbaráttunni.“