„Ég er mjög peppaður í það og ég held að það verði ekkert skrítið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Dagmálum.
Snorri Steinn, sem er 41 árs, skrifaði undir þriggja ára samning við HSÍ á dögunum en hann lék með mörgum af núverandi leikmönnum liðsins í landsliðinu á sínum tíma, þar af landsliðsfyrirliðanum Aroni Pálmarssyni.
Íþróttafréttamaðurinn fyrrverandi Guðjón Guðmundsson, betur þekktur sem Gaupi, var gestur í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, á dögunum og þar talaði hann um að Aron þyrfti að missa nokkur kíló til þess að plumma sig með landsliðinu.
„Aron, eins og aðrir, gerir sér grein fyrir því að þú þarft að vera góður og í standi til þess að spila með landsliðinu,“ sagði Snorri Steinn.
„Ég veit ekki hvað Aron er þungur en ég veit að hann er í dúndurstandi og ég hef heyrt það frá Arnóri Atlasyni.
Við þurfum ekkert að ræða það neitt sérstaklega hversu hæfileikaríkur hann er og hann er líklega sá hæfileikaríkasti ásamt Ólafi Stefánssyni,“ sagði Snorri Steinn meðal annars.