Valskonur ætla í Evrópudeildina - ÍBV í EHF

Valskonur eru Íslandsmeistarar og stefna á Evrópudeildina í vetur.
Valskonur eru Íslandsmeistarar og stefna á Evrópudeildina í vetur. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valur hefur sótt um þátttökuleyfi í Evrópudeild kvenna í handknattleik næsta vetur og freistar þess því að fara sömu leið og með karlalið félagsins í Evrópudeild karla á síðasta tímabili.

Íslensk lið hafa til þessa farið í Evrópubikar EHF í kvennaflokki, eða í Áskorendabikarinn þar á undan.

Í Evrópudeild kvenna eru leiknar tvær umferðir í undankeppni en síðan tekur við riðlakeppni þar sem sextán liðum er skipt í fjóra riðla. Karlalið Vals slapp við undankeppnina síðasta haust og fór beint í riðlakeppnina þar sem það komst áfram og fór í 16-liða úrslitin.

Valur og ÍBV eru þau tvö kvennalið sem eru skráð til leiks í Evrópukeppni næsta vetur en ÍBV fer í Evrópubikarinn. Þetta kemur fram á heimasíðu HSÍ, og þar er sagt að Stjarnan og Fram hafi ákveðið að skrá sín kvennalið ekki til leiks í Evrópumótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert