Aðalsteinn Eyjólfsson, fráfarandi þjálfari svissnesku meistaranna í Kadetten Schaffhausen í handknattleik karla, og Óðinn Þór Ríkharðsson, lykilmaður liðsins, voru báðir verðlaunaðir á verðlaunahófi svissneska handknattleikssambandsins í gærkvöldi.
Aðalsteinn, sem tekur við þýska B-deildar liðinu Minden í sumar, var valinn þjálfari ársins eftir að hafa stýrt Kadetten til svissneska meistaratitilsins, og það annað árið í röð.
Óðinn Þór var þá kjörinn vinsælasti leikmaður svissnesku úrvalsdeildarinnar að mati áhorfenda eftir frábæra frammistöðu sína í deildinni á sínu fyrsta tímabili.