Gísli bestur allra í Þýskalandi

Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur leikið gríðarlega vel síðustu mánuði.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur leikið gríðarlega vel síðustu mánuði. mbl.is/Óttar Geirsson

Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur verið kjörinn leikmaður ársins í þýska handboltanum. Gísli var einnig valinn besti leikmaður Magdeburgar á dögunum og óhætt að segja að hann hafi átt afar gott tímabil. 

Gísli fékk 48 prósent atkvæða í kjörinu, sem þýska deildin stendur fyrir og stuðningsmenn fá að kjósa. Gísli skoraði 159 mörk fyrir Magdeburg í þýsku 1. deildinni á leiktíðinni og gaf 107 stoðsendingar sömuleiðis.

Er þetta annað árið í röð sem íslenskur landsliðsmaður er kjörinn bestur í Þýskalandi, því Ómar Ingi Magnússon var kjörinn á síðasta ári.  

Danski landsliðsmaðurinn Niklas Landin var í öðru sæti í kjörinu og Samuel Zehnder, leikmaður Lemgo, þriðji. 

Gísli verður í eldlínunni með Magdeburg um helgina, því liðið leikur í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln. Magdeburg mætir Barcelona í undanúrslitum á morgun klukkan 13:15. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert