Gísli Þorgeir Kristjánsson var útnefndur besti leikmaður þýska handknattleiksfélagsins Magdeburgar á dögunum.
Gísli Þorgeir, sem er einungis 23 ára gamall, skoraði 152 mörk í 31 leik með Magdeburg á tímabilinu, ásamt því að gefa 107 stoðsendingar, en Magdeburg endaði í 2. sæti deildarinnar.
Þá fór liðið alla leið í úrslit bikarkeppninnar þar sem Magdeburg tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen í úrslitaleik í Köln en liðið varð einnig heimsmeistari félagsliða í upphafi tímabilsins eftir sigur gegn Barcelona í Sádi-Arabíu í framlengdum úrslitaleik.
Tímabilið er ekki búið hjá Magdeburg en liðið mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á morgun í Köln en sigurvegarinn úr leiknum mætir annaðhvort París SG eða Kielce, sem mætast í hinu undanúrslitaeinvíginu, í úrslitaleik á sunnudaginn.
„Ég er nokkuð sáttur og heilt yfir þá var þetta gott tímabil hjá okkur,“ sagði Gísli í samtali við Morgunblaðið.
„Við urðum heimsmeistarar félagsliða síðasta haust, fórum alla leið í úrslit bikarkeppninnar, vorum í baráttunni um Þýskalandsmeistaratitilinn allt til enda og erum komnir í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Það eru ennþá tveir leikir eftir og ef við förum alla leið í Meistaradeildinni erum við að tala um frábært tímabil hjá okkur.
Það hefur lítið vantað upp á hjá okkur í ár og fyrir mér vorum við svipað sterkir núna og í fyrra þegar við urðum Þýskalandsmeistarar. Eins og staðan er núna erum við fyrst og fremst að hugsa um leikinn gegn Barcelona en á sama tíma þarf allt að smella hjá okkur ef við ætlum okkur að vinna Spánverjana,“ sagði Gísli.
Viðtalið við Gísla má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.