Íslendingar dæma á úrslitahelginni í fjórða sinn

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson.
Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson munu dæma viðureign SC Magdeburg og Evrópumeistara Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í Lanxess-Arena í Köln klukkan 13:15 í dag. 

Þetta er í þriðja skipti sem tvíeykið mætir saman til leiks til að dæma einhvern af fjórum leikjum úrslitahelgar Meistaradeildarinnar, en leikið verður í dag í undanúrslitum og er hinn leikurinn á milli París SG og Hauki Þrastarsyni og félögum í Kielce. Síðan er leikið um þriðja sæti og loks úrslitaleikinn á morgun. 

Anton Gylfi á einnig einn leik án Jónasar, en hann dæmdi undanúrslitaleik Kielce og Barcelona í Köln 2013 með fyrrverandi dómarafélaga sínum, Hlyni Leifssyni. 

Þremur árum síðar dæmdi Anton með Jónasi viðureign París SG og Kielce um þriðja sætið. Árið 2018 dæmdu þeir félagar svo aftur, þá var um að ræða leik Vardar og Montpellier í undanúrslitum.

Stuðst var við ítarlega grein Handbolta.is við skrif þessarar greinar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert