Pólska handknattleiksliðið Kielce sigraði franska stórveldið Paris SG í seinni undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í dag, 25:24. Leikið var í Köln í Þýskalandi en þar fara allir leikirnir fram á þessari úrslitahelgi.
Það er því ljóst að Kielce mun mæta Magdeburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem spilaður verður á morgun.
Kielce leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 16:14 en lítið var skorað í seinni hálfleiknum. Liðin skoruðu samanlagt aðeins 19 mörk í hálfleiknum.
Spánverjinn Alex Dujshebaev skoraði 6 mörk fyrir Kielce og Artsem Karalek skoraði 5. Hjá Paris SG var Luc Steins markahæstur með 6 mörk og Dainis Kristopans skoraði 4 mörk.
Haukur Þrastarson spilaði ekki með Kielce í dag en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla.
Úrslitahelgin klárast á morgun með tveimur leikjum. Bronsleikurinn hefst klukkan 13:15 og þar mætast Barcelona og Paris SG. Úrslitaleikurinn sjálfur hefst síðan klukkan 16:00.