Slógu út Evrópumeistaranna á ótrúlegan hátt

Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg …
Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg eru komnir í úrslit eftir sigur á Evrópumeisturunum. mbl.is/Hallur Már

Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og félagar í Magdeburg eru komnir í úrslit Meistaradeildarinnar í handbolta eftir ótrúlegan 40:39-sigur á Evrópumeisturum Barcelona í undanúrslitaleik liðanna eftir tvíframlengdan leik og vítakeppni í í Lanxess-Arena í Köln í dag. 

Barcelona er búið að vera Evrópumeistari undanfarin tvö ár, og því um ansi krefjandi verkefni að ræða fyrirfram fyrir Íslendingaliðið.   

Gísli skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg en á 57. mínútu meiddist hann illa og þurfti að vera borinn af velli. Hrikalegar fréttir fyrir Magdeburg og íslenska landsliðið en ljóst er að hvorki hann né Ómar Ingi muni taka þátt í úrslitaleiknum á morgun. 

Staðan var 18:16 Barcelona í vil í hálfleik en í síðari hálfleiknum var Magdeburg sterkari aðilinn, sem gerði það að verkum að liðin skildu jöfn, 31:31, að venjulegum leiktíma loknum. Í  tvíframlengingunni var mikið skorað en hún fór 7:7, 38:38, og því þurfti vítakeppni til að útkljáa sigurvegarann. 

Þar fóru Börsungar afleitlega með vítin sín og skoruðu úr aðeins einu af fimm. Magdeburg fór ekki á kostum heldur en þurfti bara á tveimur vítamörkum að halda, sem liðsmenn þýska liðsins náðu og unnu að lokum 40:39-sigur. 

Magdeburg mætir annaðhvort París SG eða Hauki Þrastarsyni og félögum í Kielce á morgun klukkan fjögur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert