Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg, varð í dag Evrópumeistari með liði sínu eftir sigur í framlengdum leik gegn Kielce, 30:29.
Gísli meiddist illa í undanúrslitaleiknum gegn Barcelona í gær og ekki var talið að Gísli myndi spila leikinn í dag en okkar maður mætti út á völlinn og spilaði hreint út sagt frábærlega.
Gísli skoraði sex mörk í leiknum í dag og þar af tvö í framlengingunni þar sem hann var stórkostlegur. Auk markanna tveggja þá lagði hann upp eitt mark og fiskaði vítakast í framlengingunni og má með sanni segja að hann hafi unnið leikinn fyrir lið sitt í dag.
Eftir leikinn fékk Gísli viðurkenningu fyrir að vera besti leikmaður úrslitahelgarinnar og er hann svo sannarlega vel að þeirri viðurkenningu kominn.
Óhætt er að segja að Gísli hafi átt frábært tímabil en hann var valinn leikmaður ársins hjá Magdeburg, besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar og nú besti leikmaður úrslitahelgarinnar í Meistaradeild Evrópu.