Íslendingaliðið fékk sæti í Meistaradeildinni

Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í …
Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í Kolstad verða í Meistaradeildinni á komandi leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Norska Íslendingaliðið Kolstad, sem Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson spila fyrir, var eitt þeirra sex liða sem fékk þáttöku í Meistaradeildinni í morgun. 

Ásamt Kolstad fengu HC Zagreb, Álaborg, Montpellier, Pick Szeged og Wisla Plock sæti í deild þeirra bestu. 

Sex íslenskir handknattleiksleikmenn munu því taka þátt í Meistaradeild Evrópu á komandi leiktíð. 

Tíu félög voru þegar sérvalin í Meistaradeildina en það eru meðal annars Evrópumeistarar Magdeburg, sem Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon spila fyrir, silfurlið Kielce sem Haukur Þrastarson spilar fyrir og Veszprém sem Bjarki Már Elísson spilar fyrir. 

Ásamt þeim voru Barcelona, Kiel, París SG, HC Pelister, Porto og RK Lasko með sérvalin sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert