„Ég er allur lurkum laminn ef svo má segja en á sama tíma hefur mér aldrei liðið betur einhvern veginn,“ sagði Evrópumeistarinn og handknattleiksmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við Morgunblaðið.
Gísli Þorgeir, sem er 23 ára gamall, varð Evrópumeistari með félagsliði sínu Magdeburg um nýliðna helgi en liðið vann Kielce frá Póllandi í úrslitaleik í Köln á sunnudaginn, 30:29, eftir framlengdan leik.
Gísli Þorgeir var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar en hann fór úr axlarlið í undanúrslitaleiknum gegn Barcelona á laugardaginn sem Magdeburg vann eftir vítakeppni, 40:39 og var óvíst hvort hann myndi spila sjálfan úrslitaleikinn.
Mikil fagnaðarlæti gripu um sig þegar flautað var til leiksloka í Köln en hvernig leið honum í leikslok eftir allt sem á undan var gengið?
„Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunni eftir að flautað var til leiksloka. Þetta var klárlega besta og fallegasta tilfinning sem ég hef upplifað í lífinu og þetta var gjörsamlega magnað. Ég fer aldrei að gráta eftir handboltaleiki en þarna kom einhver allt önnur tilfinning yfir mig og tárin fossuðu út úr augunum á mér.
Það að vinna Meistaradeildina og hvernig við unnum var magnað og ég gæti ekki verið stoltari af liðinu. Þetta var gjörsamlega ólýsanlegt og að vera valinn bestur var frábær viðbót við stórkostlega helgi. Stemningin í höllinni var sturluð og andrúmsloftið magnað. Ég fæ í raun bara gæsahúð að rifja þetta allt saman upp,“ sagði Gísli Þorgeir meðal annars.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.