Andri Finnsson átti stórleik fyrir íslenska U21-árs landsliðs karla í handknattleik þegar liðið mætti Síle í G-riðli heimsmeistaramótsins í Aþenu í Grikklandi í dag.
Leiknum lauk með stórsigri Íslands, 35:18, en Andri gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk úr sjö skotum.
Sigur íslenska liðsins var aldrei í hættu en Ísland leiddi með sex mörkum í hálfleik, 12:6.
Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sex mörk fyrir Ísland og þeir Símon Michael Guðjónsson og Kristófer Máni Jónasson fjögur mörk hvor.
Ísland er með fjögur stig eða fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins eftir fyrstu tvo leiki sína og tryggði sér með sigrinum sæti í sextán liða úrslitum þar sem leikið verður í fjórum riðlum. Lokaleikur riðlakeppninnar er gegn Serbíu á föstudaginn. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í milliriðla en Serbía vann stórsigur á Síle í fyrstu umferðinni og mæti Marokkó í dag.