Bikar- og deildarmeisturum ÍBV í handknattleik kvenna hefur borist öflugur liðstyrkur þar sem senegalska landsliðskonan Britney Cots hefur samið um að leika með liðinu á næsta tímabili.
Cots, sem er 26 ára gömul rétthent skytta og sterkur varnarmaður, kemur frá Stjörnunni, þar sem hún hefur leikið undanfarin tvö tímabil.
Hún hefur leikið hér á landi undanfarin fimm ár þar sem Cots var á mála hjá FH í þrjú tímabil áður en hún skipti yfir til Stjörnunnar.
Þar á undan hafði Cots leikið í næstefstu deild í Frakklandi, en áður en hún valdi að leika fyrir A-landslið Senegals lék skyttan fyrir yngri landslið Frakklands, þar sem hún er fædd.
„Við erum mjög ánægð með að Britney hafi ákveðið að ganga til liðs við okkur og hlökkum til að sjá hana inni á vellinum! Velkomin Britney!“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild ÍBV.