Gísli Þorgeir frá í hálft ár?

Gísli Þorgeir Kristjánsson er á leið í aðgerð.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er á leið í aðgerð. AFP

Handboltamaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson er á leið í aðgerð eftir að hann fór úr axlarlið í leik Magdeburgar og Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í Köln um síðustu helgi.

Þetta tilkynnti Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburgar, í samtali við þýska miðilinn Bild en þrátt fyrir meiðslin lék Gísli Þorgeir úrslitaleikinn gegn Kielce, þar sem Magdeburg vann nauman sigur.

Þá var íslenski leikstjórnandinn valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar en þetta er í þriðja sinn sem hann fer úr lið á hægri öxlinni.

Stefnir á aðgerð í næstu viku

„Vonandi kemst hann í aðgerð í næstu viku,“ sagði Wiegert í samtali við Bild.

„Hann stjórnar því sjálfur hvar og hjá hverjum hann fer í aðgerð. Ég get hins vegar ekki sagt til um það hversu lengi hann verður frá.

Við þurfum að bíða og sjá,“ bætti Wiegert við, en fari svo að hann verði frá í sex mánuði ætti hann að vera orðinn klár í slaginn þegar íslenska liðið heldur til Þýskalands á Evrópumótið í janúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert