Sannfærandi sigur og Ísland vann riðilinn á HM

Lið Íslands sem leikur á HM.
Lið Íslands sem leikur á HM. Ljósmynd/EHF

Íslendingar unnu afar mikilvægan sigur á Serbum á heimsmeistaramóti 21-árs landsliða karla í handknattleik í Aþenu í kvöld, 32:29.

Þar með unnu íslensku strákarnir riðilinn með 6 stig en Serbar fengu 4 stig og fylgja þeim í milliriðil. Marokkó fékk 2 stig en Síle ekkert.

Ísland fer því með tvö stig í milliriðilinn en Serbar ekkert og það er afar dýrmætt því þar bætast aðeins við tvö lið, Egyptar sem fara áfram með tvö stig og Grikkir með ekkert.

Ísland mætir Grikklandi á sunnudaginn og Egyptalandi á mánudaginn en tvö efstu lið milliriðilsins komast í átta liða úrslit mótsins.

Íslensku strákarnir byrjuðu af krafti í dag, komust i 3:0 og 4:1 en Serbar jöfnuðu í fyrsta og eina skiptið í fyrri hálfleik í 7:7. Þá komu fimm íslensk mörk í röð á frábærum kafla, staðan 12:7, en Serbar söxuðu á forskotið og skoruðu að lokum tvö síðustu mörk fyrri hálfleik þannig að þá stóð 16:14, Íslandi í hag.

Serbar minnkuðu síðan muninn í 16:15 og 17:16 í byrjun síðari hálfleiks en íslenska liðið náði aftur undirtökunum, komst í 22:18 og síðan í 27:21 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Munurinn var fjögur til sex mörk eftir það, þar til Serbar skoruðu síðasta markið undir lokin, og íslensku strákarnir sigldu heim all öruggum sigri.

Mörk Íslands: Símon Michael Guðjónsson 8, Andri Már Rúnarsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Arnór Viðarsson 3, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Stefán Orri Arnalds 2, Andri Finnsson 1, Tryggvi Þórisson 1, Ísak Gústafsson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka