Færeyska U21-árs landsliðið í handknattleik gerði sér lítið fyrir og sigraði jafnaldra sína frá Spáni, 34:31, í lokaleik liðanna í D-riðli HM 2023 í Þýskalandi og Grikklandi í gærkvöldi.
Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, bæði með fjögur stig, og því um hreinan úrslitaleik að ræða þegar kom að toppsæti D-riðils.
Óhætt er að segja að frændur vorir frá Færeyjum hafi mætt ákveðnir til leiks þar sem staðan var 21:10 þegar flautað var til hálfleiks.
Mest náði liðið þrettán marka forystu í upphafi síðari hálfleiks og var tíu mörkum yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af honum.
Þá tóku Spánverjar vel við sér og minnkuðu muninn stöðugt. Komust þeir hins vegar ekki nær en þremur mörkum og magnaður sigur Færeyja niðurstaðan.
Færeyjar unnu því riðilinn og taka með sér tvö stig í milliriðil, þar sem liðið mætir Portúgal og Brasilíu.
Isaak Vedelsböl og Hákun West av Teigum voru markahæstir í liði Færeyja með átta mörk hvor.
Elias Ellefsen á Skipagötu bætti við sjö mörkum og yngri bróðir hans Rói Ellefsen á Skipagötu skoraði fimm mörk.