Færeyjar í átta liða úrslit

Elias Ellefsen á Skipagötu skoraði 13 mörk fyrir Færeyjar í …
Elias Ellefsen á Skipagötu skoraði 13 mörk fyrir Færeyjar í dag. Ljósmynd/in.fo

Færeyska U21-árs landslið karla í handbolta er búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum HM 2023 með öruggum sigri á Brasilíu, 33:27, í milliriðli 2 í Hannover í Þýskalandi í dag.

Færeyjar voru þremur mörkum yfir, 16:13, í hálfleik og sigldu að lokum þægilegum sex marka sigri í höfn.

Elias Ellefsen á Skipagötu átti enn einn stórleikinn er hann skoraði 13 mörk fyrir Færeyjar og var þannig langmarkahæstur í leiknum.

Hákun West av Teigum lét hins vegar ekki sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn og bætti við tíu mörkum.

Janus Dam Djurhuus, vinstri hornamaður Íslandsmeistara ÍBV, skoraði tvö mörk fyrir Færeyinga.

Fyrr í dag vann Portúgal sterkan sigur á nágrönnum sínum frá Spáni, 33:31.

Bæði lið eru því með 4 stig í milliriðli 2 í efstu tveimur sætum riðilsins á meðan Spánn og Brasilía eru án stiga og úr leik.

Færeyjar og Portúgal fara því bæði í átta liða úrslitin og mætast í hreinum úrslitaleik um efsta sæti milliriðilsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka