Færeyingar hafa farið á kostum á heimsmeistaramóti 21-árs landsliða í handbolta þar sem þeir tryggðu sér í gær sæti í átta liða úrslitum, og nú hafa þeir kallað enn einn efnilegan leikmann inn í sinn hóp fyrir lokasprett mótsins.
Óli Mittún er aðeins 18 ára gamall, leikmaður Sävehof í Svíþjóð og færeyska U19 ára landsliðsins, sem er á leið í lokakeppni heimsmeistaramótsins í þeim aldursflokki síðar í sumar.
Hann átti því ekki að vera með á HM U21 árs, enda þremur árum yngri en flestir þar, en Mark Lausen-Marcher þjálfari kallaði hann til Þýskalands í gær.
Óli er talinn meðal efnilegustu leikmanna heims í sínum aldursflokki, hefur þegar leikið með A-landsliði Færeyja, og bætist í hóp hinna bráðefnilegu leikmanna 21-árs landsliðsins en þeir Elías Ellefsen á Skipagötu og Hákun West av Teigum hafa farið á kostum á mótinu til þessa. Elías þykir einn efnilegasti handboltamaður heims um þessar mundir og er á leið frá Sävehof til þýsku meistaranna Kiel.
Færeyingar mæta Portúgölum í lokaumferð milliriðlakeppninnar í dag. Bæði lið eru með fullt hús stiga og eru þegar komin í átta liða úrslitin.
Lið Íslands leikur í dag gegn Egyptalandi og nægir jafntefli þar til að gulltryggja sér keppnisrétt í átta liða úrslitunum.
Þar gætu Ísland og Færeyjar einmitt mæst en liðið sem vinnur riðil Íslands mætir liði númer tvö í riðli Færeyja, og öfugt.